
Jæja nú erum við mæðginin komin heim eftir mjög skemmtilega helgi. Við flugum á Wellington, höfðuborg Nýja Sjálands, á föstudagsmorguninn. Gengum um miðborg Wellington og fórum í Te Papa safnið. Þetta er safn á 6 hæðum sem tekur meira en einn dag að skoða. Eitt flottasta safn sem ég hef komið í. Svo um eftirmiðdaginn var keyrt til Hastings, um 4 tíma keyrsla þangað upp eftir. Hastings er í Hawks Bay sem er eitt helsta ávaxta- og vínræktunarhérað nýsjálendinga. Mjög góð vín sem koma frá þessu héraði. Við komum frekar seint um kvöldið á áfanga stað og þeir íslendingar sem enn voru vakandi voru eiturhressir að þjóðlegum vanda. :) Á laugardeginum fórum við í vatnsrennibrautargarð og skemmtum okkur konunglega. Því næst fórum við að skoða ostagerð, þar sem búnir voru til fjölmargar tegundir af ostum úr mismunandi mjólk, þe. kúamjólk, geitamjólk og sauðamjólk. Svo fórum við að skoða hunangsgerð og smökkuðum á mismunandi tegundum af hunangi, ég bara vissi ekki að það væru til margar tegundir. Um kvöldið gæddum við okkur á grillmat, sviðakjömmum, rúgbrauði, kleinum og pönnukökum með rjóma. Að ógleymdu harðfiski, hákarli og brennivíni sem er hreint ómissandi með. Svo þegar söngvatnið var farið að virka þá voru tekin upp söngheftin og sungið, hver með sínu nefi. Eina sem vantaði var gítarinn. Nú er bara að fara að safna í ferðabaukinn til að komast á næsta íslendingamót en það verður haldið aftur á norðureyjunni rétt fyrir utan New Plymouth.
1 ummæli:
Mér finnst hópurinn nú bara líta vel út. Skrítið að sjá svona alla saman, hafði ekki gert mér grein fyrir að þetta væru svona margir.
Næsta mót í Wanganui?
Skrifa ummæli