laugardagur, mars 13, 2010

Waterpolo


Heiðar er byrjaður að æfa Waterpolo - sundknattleik. Spilar með skólaliðinu á hverjum miðvikudegi. Æfingarnar eru fyrir skóla þe. kl 07 á morgnana. Hann er duglegur kappinn.

Nýr fjölskyldu meðlimur

Nú hefur nýr fjölskyldu meðlimur litið dagsins ljós. Hann kom í heiminn 27 febrúar, vóg 4335 gr og var 53 cm langur. Hann hefur fengið nafnið Matthías Ingi. Matthías Ingi er mjög duglegur að drekka og vaka á nóttunni. Foreldrum sínum til mikillar gleði. Það er að hann drekkur vel. Stefán Magnús skilur ekkert í því að hausinn á foreldrum hans hangir alltaf til hliðar þegar þau setjast niður :)

miðvikudagur, mars 03, 2010

Til vina og vandamanna

Jæja vinir og vandamenn. Við erum að endurvirkja bloggsíðuna okkar. Við lofum ekki neinum stórum færslum en munum reyna okkar besta :)

sunnudagur, október 19, 2008

Er ekki tími til kominn að...........

Við erum lifandi! Allt gott af okkur að frétta. Bergur er að ljúka veru sinni á gjörgæslunni og mun fara aftur á bráðamóttökuna. Svo er hann á fullu í sjúkrafluginu þess á milli. Já, bara sáttur við sitt. Það er Heiðar líka þrátt fyrir að honum fyndist foreldrar sínir reyna að eyðileggja fyrir honum skólafríið með því að takmarka þann tíma sem hann mátti eyða í tölvunni og horfa á sjónvarp. Nú er skólinn byjaður aftur og er hann bara ánægður með það, svona eins og unglingi einum er lagið :) Stefán Magnús er byrjaður að mæta á leikskólann. Finnst gaman að mæta þegar mamma eða pabbi eru með honum en svo þegar þau ætla að fara þá líst honum ekki eins vel á hann. Hann er nú farinn að venjast betur grætur bara í 10 mín þangað til hann fær kex og sitja rólunni. Þá er hann ánægður, dinglar þarna og maular kexbitann sinn. Ég er farin að "vinna", eða í þjálfunarprógramið á Princess Margaret Hospital. Það er einkarekin röntgendeild, svona hálf stafræn eins og það sem ég starfaði við heima nema annað myndvinnslukerfi. Kom sjálfri mér þægilega á óvart hvað ég man hvernig á að gera hlutina. En þetta kemur allt hægt og rólega. Fyndið hvað hver deild hefur sinn sið :) Reyndar er einn siður sem við ættum að taka upp í Fossvoginum, á föstudögum eftir vinnu setjast allir inn á kaffistofu með kælt hvítvín og bjór, svo er spjallað um daginn og veginn :) Eftir 3 mánaða þjálfun þá tek ég próf þannig að í janúar ætti ég að verða fullgildur geislafræðingur á NZ.

mánudagur, júní 16, 2008

Ísland


Loksins erum við tilbúin að leggja af stað, allir orðnir spenntir að hitta ykkur. Sjáumst hress.

laugardagur, maí 24, 2008

Haustlitaferð

Um daginn var farið í haustlitaferð. Stefnan tekin á Hanging Rock Bridge sem var merkt inn á kort sem áhugaverður staður. Jú jú þetta var falleg lítil á en brúin var nú bara venjuleg steinbrú og í fjarska sá maður lítill klett. Skrítið að merkja þetta inn á kort. Við gerðum gott út hlutunum keyrðum niður að ánni, fengum okkur nesti og áttum bara notalega fjölskyldustund. Þetta var reyndar fyrsta lautarferð Stefáns Magnúsar, hann er enn í stífri ferðaþjálfun hjá pabba sínum :)

fimmtudagur, maí 01, 2008

Hoppa, hoppa, hoppa!

Stefán Magnús fékk hoppurólu í dag með tónlistarmottu. Tónlistarmottan er með 3 mismunandi stillingar, dýrahljóðum, danstónlist og "silly sounds" Hann fékk smá hjálp hjá bróður sínum hvernig ætti að hoppa. Ekki það að hann þyrfti hana hann var svo snöggur að átta sig á hoppinu. En tónlistarmottan truflaði aðeins því hann horfði meira á myndirnar á henni heldur en að hoppa :) Heiðar Örn var í svona hoppurólu þegar hann var lítill og fannst það mjög gaman. Gaman frá því að segja að þegar Bergur var að setja upp róluna með Stefáni Magnúsi í, byrjaði hann að skamma Heiðar fyrir að toga svona í róluna. Heiðar og ég veltumst um af hlátri því Heiðar kom ekki við róluna né Stefán Magnús. Bergur áttaði sig bara ekki á því hvað stráksi var orðinn þungur :)

laugardagur, apríl 19, 2008

Loksins!

Loksins smá blogg frá okkur :) Er ekki til íslenskt máltæki : Engar fréttir, góðar fréttir!

Við höfum það gott hérna í Kiwilandi. Heiðar er kominn í Burnside High School, byrjaði ár 9 núna í febrúar. Skólinn er frá ári 9 til 13. 13 er útskriftarárið og eru krakkarnir að verða 18 ára þegar þau útskrifast. Honum gengur vel í skólanum. Byrjaði að læra þýsku í vetur og líkar það vel. Það er gaman hvað hefur orðið mikil breyting á honum í sambandi við lærdóminn. Hann er svo metnaðarfullur með heimalærdóminn og þau próf sem hann tekur. Svo er hann í "Chorus" í uppfæslu skólans á söngleiknum Grease. Fer á söng og dansæfingar reglulega. Fyrir 2 vikum byrjaði hann í tónlistarskóla "Christchurch Music Center" þar sem hann lærir á franskt horn eins og hann Jói afi heitinn spilaði á. Kennarinn Mr Antonius er mjög ánægður með hann, ég sat í tíma hjá honum í gær og hlustaði á Heiðar spila. Þá sagði Mr Antonius: "Heidar you are a natural French Horn player!" Getur maður fengið betra hrós :)

Stefán Magnús bætir við sig á hverjum degi. Hann hefur uppgötvað hendurnar sínar og er farinn að hafa góða stjórn á þeim. Tekur hluti og stingur þeim upp í sig, allt á að fara upp í munninn. Í morgun greip hann í fyrsta skipti í tærnar á sér og var að reyna að stinga þeim upp í sig. Það heyrðist rym og miklar stunur við þessar æfingar, litli bollu bumban var heldur betur fyrir. Svo er ekkert skemmtilegra en að standa í fæturnar. Heiðar segir að hann læri að standa og ganga örugglega áður en hann lærir að sitja og skríða. Stefán Magnús er mjög hrifinn af bróður sínum. Þegar Heiðar kemur heim á daginn úr skólanum baðar hann út handleggjunum og veifar höndunum og er eitt sólskins bros í framan. Heiðari finnst nú ekkert leiðinlegt að hafa einn sem sýnir honum óskipta athygli og finnst öll fíflalætin sem hann framkvæmir skemmtileg :)
Bergur vinnur núna í "Beina búðinni" eins og Heiðar kallar það. Bone Shop er það kallað á ensku, hann vinnur þarna í 3 mánuði, þetta er partur af sérnámsprógramminu hans.
Við fjárfestum í flugmiðum heim til Íslands í fyrradag. Áætlað er að koma heim um miðjann júní og vera í mánuð. Reyndar getur Bergur aðeins verið í 2 vikur. Við hlökkum mikið til. Vonum að sjá sem flesta heima!